Ávarp forstjóra

Guðjón Auðunsson:
Uppgjör ársins ber með sér batnandi horfur, rekstur Reita leitar í hagfelldan hefðbundinn farveg með minnkandi áhrifum faraldursins. Góður gangur var í útleigu á árinu 2021 og nýting fasteigna batnaði milli ára. Efnahagsleg áhrif faraldursins eru sýnileg í rekstrarniðurstöðu ársins en vonir standa til þess að þau verði hverfandi á árinu 2022.

Reitir er vel fjármagnað félag sem er vel í stakk búið til að ráðast í fasteignakaup og umfangsmiklar endurbætur innan eignasafnsins. Rekstrarafgangur félagsins, að teknu tilliti til ráðstöfunar til hluthafa og fjármagnsgjalda, skapar grundvöll fyrir umtalsverðum árlegum fjárfestingum

Á árinu 2021 fjárfestu Reitir m.a. í þremur verslunarkjörnum þar sem verslunin Krónan er stærsti leigutakinn, þ.e. í Mosfellsbæ, á Akranesi og Reyðarfirði. Þar að auki keyptu Reitir Sunnukrika 3 og 3b í Mosfellsbæ og Hallarmúla 2 í Reykjavík, ásamt umtalsverðum byggingarheimildum á því svæði.  Enn fremur fjárfesti félagið myndarlega í eigin eignasafni.

Þróunarverkefni öflug leið til verðmætasköpunar innan dreifðs eignasafns

Þó að þróunarverkefnin séu hlutfallslega lítill hluti eignasafns Reita, tæplega 6% virðis fjárfestingareigna, þá eru verkefnin öflug leið til verðmætasköpunar fyrir hluthafa og fjárfesta. Þetta kom bersýnilega í ljós með sölu félagsins á Orkureitnum. Þar var um að ræða vel staðsetta, stóra og vannýtta lóð sem Reitir hafa þróað frá grunni á undanförnum árum. Byggingarreiturinn var seldur á 3.830 m.kr. sem áætlað er að skili félaginu um 1.300 m.kr. söluhagnaði.  

Þróunarreitir við fyrirhugaða legu Borgarlínu

Við kynntum á sl. ári hugmyndir um nokkur ný þróunarverkefni sem öll tengjast fyrirhugaðri legu Borgarlínu. Reynslan erlendis sýnir að öflug almenningssamgöngukerfi eiga það til að skapa sterka kjarna við biðstöðvar og að íbúðir í nálægð við stöðvarnar verða eftirsóttar. 

Á Loftleiðasvæðinu eiga Reitir húsnæði Icelandair Hotel Reykjavik Natura og Nauthólsveg 50, skrifstofuhúsnæði Icelandair, sem er sambyggt hótelinu. Þar höfum við kynnt hugmyndir um uppbyggingu fasteigna með skrifstofum og/eða íbúðum. Þá er gert ráð fyrir fallegu torgi með Borgarlínustöð, matvöruverslun, líkamsrækt og kaffihúsi.  Við sinn hvorn enda Suðurlandsbrautar sjáum við tækifæri í þróun, annars vegar á Suðurlandsbraut 54, Metróreitnum í Skeifunni, þar sem við viljum byggja um 87 nýjar íbúðir. Hins vegar við Suðurlandsbraut 2, Hilton Reykjavik Nordica, og á lóð Hallarmúla 2. Þar er verið að skoða heildstætt nýtt skipulag sem mun hýsa hótel eða íbúðir.  

Hafist hefur verið handa við endurgerð suðurenda Kringlunnar, þar mun ný afþreying og spennandi veitingaframboð laða fólk að bæði á kvöldin og á hefðbundnum þjónustutíma Kringlunnar. Þessi breyting byggir undir stærri þróunaráform þar sem Kringlan verður heildstæður lifandi borgarkjarni með afþreyingu, menningu, íbúðum, verslun og fjölbreyttri atvinnu.  

Gegnsæ upplýsingagjöf til fjárfesta

Reitir leggja mikla áherslu á gegnsæja upplýsingagjöf til fjárfesta. Þannig höfum við um árabil litið til leiðbeininga EPRA, samtaka skráðra fasteignafélaga í Evrópu, um aðferðafræði við útreikning kennitalna og hvaða upplýsingar skuli birtar. Margar kennitölur byggjast á mati stjórnenda, s.s. áætluðu leiguverði óútleigðra rýma og verðmati fasteigna. Samanburður milli félaga getur því verið ónákvæmur ef ekki er notast við samræmda aðferðafræði. 

Fasteignamat fasteigna og lóða Reita er rúmlega 123 ma.kr. og verðmat tæplega 163 ma.kr. Vaxtaberandi skuldir Reita í árslok voru tæplega 91 ma.kr. og eru skuldir því tæp 74% af fasteignamati og 56% af verðmati. Fasteignamat er unnið á sambærilegan hátt milli eigna og sveitarfélaga og myndar því óháðan grunn til samanburðar á fasteignum og fasteignasöfnum. Reitir hafa gefið út ítarlegar eignasafnsskýrslur tvisvar árlega um nokkurra ára skeið sem ætlað er að gefa fjárfestum sem gleggsta mynd af leigutekjum og fasteignum.

Annað dæmi um greinargóða upplýsingagjöf til fjárfesta varðar útleiguhlutfall, en félagið hefur lengi gefið upp bæði áætlaðar tapaðar leigutekjur vegna óútleigðra rýma og nýtingarhlutfall yfir hvert uppgjörstímabil. Við teljum að með því að birta hlutfallið yfir tímabil öðlist fjárfestar sem gleggsta yfirsýn yfir árangurinn í heild enda getur árstíðasveifla verið í úleigu, sér í lagi hvað verslunarhúsnæði varðar. Með því að gefa út áætlaðar tapaðar leigutekjur viljum við gefa fjárfestum skýra mynd af þeim tekjum sem safnið er fært um að skapa.  

Samfélagsleg ábyrgð

Það er Reitum metnaðarmál að sýna ábyrgð í samfélagsmálum og gefum við nú út samfélagsskýrslu í þriðja sinn. Dregið hefur úr kolefnislosun frá rekstrinum um 29% og munar þar mest um minni losun vegna bættrar flokkunar á byggingaúrgangi frá framkvæmdum. Unnið er að BREEAM In-Use vottun skrifstofu Landspítala við Skaftahlíð 24 og verður það þriðja umhverfisvottunin sem félagið hlýtur.

Fjárfestar og leigutakar mega vera stoltir af framlagi Reita í baráttunni við heimsfaraldurinn, láni á Suðurlandsbraut 34, einni aðalvígstöð heilbrigðisyfirvalda í baráttunni. Slíkur stuðningur væri ekki mögulegur án öflugra leigutaka og ábyrgra, samfélagslega þenkjandi eigenda.    

Árið 2022 markar 35 ára afmæli Reita. Fasteignir félagsins hafa margar staðið af sér ýmsa atburði í tímans rás; lok kalda stríðsins, bankahrun, þátttöku Íslands á EM og nú síðast heimsfaraldur, sem setti vissulega strik í rekstur ársins 2021. En við horfum fram á við, enda eru fasteignir langtímafjárfesting sem krefjast sveigjanleika og framsýni ekki síður en áreiðanleika. Stefna okkar til framtíðar er skýr. Hún felur í sér frekari sókn þar sem tækifærum nýrra tíma verður mætt af árvekni og fagmennsku. Kjölfestan er sem fyrr framúrskarandi starfsfólk félagsins.

Ég vil þakka viðskiptavinum, fjárfestum, stjórn og samstarfsfólki farsæl samskipti og gott samstarf á árinu 2021.